Tuttugasti og fjórði desember. Jólablogg.
Ég var búinn að lofa Helga Þór (syngist með ó Helga Nótt) að blogga áður en jólaklukkurnar hringja klukkan 18 á aðfangadegi jóla.
Árið hefur verið að mörgu leyti mjög fínt. Fyrirtækið sem ég vinn hjá hefur líklega ekki átt betra fjárhagslegt ár. Það sýndi sig svo berlega í jólagjöfinni. Súkkulaðinu hefur fækkað um eitt og bollinn er númeri minni enn í fyrra. Þegar ég byrjaði hjá UPS var vart hægt að loka kassanum af því að sælgætið flaut yfir. Það sama er á teningnum í ár, nema að ástæðan fyrir því að kassinn var útbelgdur var að uppblásna plastið, til að vernda smábollann, fyllti út í allt og sjálfur súkkulaðispænirinn sem fylgdi með var farinn að óttast um sína tilveru og þráði að komast sem fyrst í meltingarfæri þyggjandans.
Hvað er merkilegast á árinu, jú líklega það að við loksins keyptum okkur húseign í bænum Ryslinge á miðjum Fjóni. Ryslinge er borið fram Ruslinge og vekur nákvæmlega enga kátínu hjá dönskum vinum en íslenskir brosa út í annað.
Við erum búin að vera, hægt og rólega, að bæta og breyta í húsinu okkar í Ruslinu. Eiginlega fyrst núna að okkur finnst við almennilega vera heima hjá okkur.
Ein stærsta breytingin er líklega eldhúsið. Gamla eldhúsið, sem samt var bara rétt rúmlega tveggja ára, var með myntugrænar skápahurðar í háglans. Til að toppa dýrðina voru leðurhöldur. Við virðumst vera þau einu sem fannst þetta ekki fallegt. Aðrir dásömuðu eldhúsið, sem fær mig til að halda að fólk sé almennt smekklaust. Anyway, við skiptum út skápahurðunum út með hvítum því að okkur langar að leika okkur með liti í eldhúsinu.
Stofan var máluð tvisvar og fékk trégólf. Við erum samt að fara breyta henni aftur. Sjáum til hvað gerist. Garðurinn fær athygli næsta sumar og svo er planið að planið að framan breytist eitthvað.
Fjölskyldan eignaðist svo hund í ágúst byrjun. Flóki heitir hann og er lífleg bómull, sem hlýðir nánast aldrei þegar við köllum á hann, en þekkir í sundur skrjáf í umbúðum, hvort það sé grænmeti eða hundanammi. Ég er hægt og rólega að sættast við hundinn, svona svipað og vera með þurrar iljar og með tímanum bara sættast við orðinn hlut og módelstörf í sokkabransanum eru fjarlægur draumur og jafnvel tálsýn.Kvöldið verður hugga með krökkum og óþarflega miklum hitaeiningum.
Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og nýttár þegar það svo nú kemur. vonandi verður þessu Covid bulli lokið næst þegar ég blogga.
knús og kram
Arnar Thor
Ummæli
Innilgea til hamingju með húsið.